Umferðarþjónusta - Tilkynning - 22.3.2018

Jón Hálfdán Jónasson 2018-03-22 19:22

Ábendingar frá veðurfræðingi, fimmtudaginn 22. mars kl. 15:00

Litur: Gulur

Snjóa mun í nótt og í fyrramálið um norðvestanvert landið, einnig á láglendi. Frá Snæfellsnesi og ofanverðum Borgarfirði, vestur og norður um á Öxnadalsheiði og í Fljót. Hált verður og skafrenningur að auki á Vestfjörðum.

Tafir

Búast má við einhverjum töfum á umferð eftir kl. 17:00 í dag á vegi. nr. 60 við Vattarnes vegna aðgerða við að ná vöruflutningabifreið inn á veg.

Einnig má búast við töfum í Vestfjarðagöngum í kvöld eftir kl. 21:00 og fram undir morgun vegna flutninga á námutrukkum.

Færð og aðstæður

Á Suður- og Suðvesturlandi eru vegir að mestu greiðfærir. Hálkublettir eru þó á Hellisheiði.

Á Vesturlandi eru vegir einnig greiðfærir en hálkublettir og éljagangur er á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku.

Á Vestfjörðum er eitthvað um hálku, hálkubletti eða snjóþekju á fjallvegum og einnig éljagang en greiðfært á láglendi. Dynjandisheiði er ófær vegna aurbleytu og óvíst með dagsetningu opnunar.

Vegir eru að mestu greiðfærir um norðanvert landið en hálkublettir eru á Öxnadalsheiði, Vopnafjarðarheiði og Sandvíkurheiði.

Á Austur- og Suðausturlandi eru vegir að mestu greiðfærir. Búið er að opna veginn um Breiðdalsheiði og er hálka þar.

Slitlagsskemmdir

Eftir veðurfarið að undanförnu hefur mikið borið á slitlagsskemmdum á vegum. Á þessum árstíma er aðeins hægt að bregðast við með ófullkomnum bráðabirgðaviðgerðum og því eru vegfarendur beðnir að sýna sérstaka aðgát við þessar aðstæður.

Þungatakmarkanir

Vegna hættu á slitlagsskemmdum þarf sums staðar að takmarka ásþunga umfram það sem almennt gerist. Sjá nánar hér.

Hreindýr á Austur- og Suðausturlandi

Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vara vegfarendur við umferð hreindýra á Austur- og Suðausturlandi.