Umferðarþjónusta - Tilkynning - 19.5.2017

Sveinfríður Högnadóttir 2017-05-19 15:22

Þungatakmarkanir á Vestfjarðarvegi (60)

Vegna framkvæmda við brú á Þverdalsá verða ásþungi takmarkaður við 2 tonn frá Flókalundi að Helluskarði frá kl. 12:00 mánudaginn 22. maí til kl. 12:00 fimmtudaginn 25. maí. Við bendum á hjáleið um Barðastrandaveg nr. 62 og Bíldudalsveg nr. 63.

Umferðartafir á Höfuðborgarsvæðinu

Mánudaginn 22.maí er stefnt að því að fræsa og malbika á Reykjanesbraut/Sæbraut til norðurs, frá slaufu niður af  Miklubraut og að slaufu upp á Miklubraut. Báðar slaufur verða lokaðar á meðan. Þrengt verður að umferð og má búast við lítilsháttar umferðartöfum. Lokanir verða merktar meðan á framkvæmd stendur. Áætlað er að framkvæmdirnar standi yfir milli kl. 9:00 til kl. 14:00.

Einnig er stefnt að því að malbika ramp frá hringtorgi við Hádegismóa niður á Suðurlandsveg til norðurs. Rampurinn verður lokaður á meðan og þrengt verður að umferð þar sem rampurinn kemur niður á Suðurlandsveginn. Búast má við lítilsháttar umferðartöfum. Lokanir verða merktar meðan á framkvæmd stendur. Áætlað er að framkvæmdirnar standi yfir milli kl. 14:00 til kl. 19:00.

Vegfarendur eru beðnir um að virða lokanir og hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðin. Vinnusvæðin eru þröng og menn og tæki eru við vinnu mjög nálægt akstursbrautum.

Umferðartafir á Hringvegi

Vegna endurbóta á Hringvegi í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu verður umferðarhraði takmarkaður við 50 km/klst á framkvæmdasvæðinu fram í miðjan júlí. Þrengt verður að umferð og má búast við lítilsháttar umferðartöfum á meðan framkvæmdir standa yfir.

Vegfarendur eru beðnir um að virða hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðið þar sem menn og tæki eru við vinnu á og við akbrautina.

Umferðartafir við Jökulsá í Lóni

Búast má við umtalsverðum umferðartöfum á brúnni á Jökulsá í Lóni, um 20-30 mín í senn, milli kl 07.00 – 19.00  fram til 30. júní vegna framkvæmda.

Hálendisvegir að vori

Þegar frost er að fara úr jörð getur jarðvegur orðið mjög gljúpur og viðkvæmur. Þetta á m.a. við um lélega malarvegi og frumstæða slóða líkt og á hálendinu. Akstur er þá bannaður til að koma í veg fyrir skemmdir, bæði á vegunum sjálfum og landi og gróðri sem geta skemmst illa ef ekið er út fyrir veg. Akstursbann hefur nú verið sett á nokkra vegi eins og sjá má á færðarkortinu.

Lokun Eyravegar á Selfossi

Gatnamót Eyravegar og Kirkjuvegar á Selfossi eru lokuð vegna lagnaframkvæmda. Umferð er vísað hjáleið um Tryggvagötu meðan á framkvæmdum stendur. Vonast er til að vinnu ljúki í fyrstu viku júní.  Sjá nánar hér.

Borgarfjarðarbrú

Vegna vinnu við Borgarfjarðarbrú er önnur akreinin lokuð og umferð er stýrt með ljósum. Áætluð verklok eru um miðjan júní.

Þungatakmarkanir

Vegna aurbleytu og hættu á skemmdum eru sérstakar ásþungatakmarkanir á fáeinum vegum á austanverðu landinu og eins á Vestfjörðum.