Umferðarþjónusta - Tilkynning - 13.1.2018

Jón Hálfdán Jónasson 2018-01-13 21:39

Frá veðurfræðingi kl. 16:30

Litur: Gulur

Ört dýpkandi lægð fer yfir vestanvert landið í nótt. Í vestanáttinni í kjölfar hennar gerir storm með hríðarbyl.  Suðvestanlands í nótt og fyrst í fyrramálið, síðan hvöss og dimm él.  Víða verður stormur og allt að 23-28 m/s norðanlands um kl. 9 í fyrramálið og hríðarbylur.  Stórvarasamar hviður á sama tíma í vestanverðum Eyjafirði allt að 45-50 m/s.  Ekki ólíklega einnig í Skagafirði á milli Varmahlíðar og Sauðárkróks. Í því vonskuveðri sem spáð er á morgun er ferðalöngum bent á að leggja ekki í hann nema að vel athuguðu máli.   

Færð og aðstæður

Það hefur éljað á Suður- og Suðvesturlandi og þar er því víða nokkur hálka eða hálkublettir. Snjóþekja og krapi er á Hellisheiði, Mosfellsheiði og í uppsveitum Suðurlands.

Á Vesturlandi og Vestfjörðum er víða nokkur hálka, krapi eða snjóþekja og sums staðar skafrenningur. Éljagangur er á Snæfellsnesi og á Vestfjörðum. Þæfingsfærð og snjókoma er kominn á ýmsa fjallvegi t.a.m. Holtavörðuheiði, Bröttubrekku, í Svínadal og á Steingrímsfjarðarheiði sem og á Hálfdán og Gemlufallsheiði.

Á Norður- og Austurlandi er hins vegar mikið autt eða aðeins hálkublettir. Hálka er þó á Vatnsskarði, Öxnadalsheiði, Möðrudalsöræfum og á fáeinum útvegum. 

Hálka eða hálkublettir eru á köflum á Suð-austurlandi. Öxi var einnig opnuð í dag og þar er snjóþekja og éljagangur. Hálkublettir eru á Breiðdalsheiði.

Hreindýr á Austur- og Suðausturlandi

Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vara vegfarendur við umferð hreindýra á Austur- og Suðausturlandi.

Breiðafjarðarferjan Baldur

Breiðafjarðarferjan Baldur er í viðgerð og  á meðan er vetrarþjónusta við suðurfirði Vestfjarða lengd til klukkan 20:00.

Hálendisvegir

Vegir á hálendinu eru að mestu ófærir enda engin þjónusta á þeim á þessum árstíma. Allur akstur er bannaður á vegi 864 fyrir austan Jökulsá á Fjöllum vegna skemmda í veginum.