Umferðarþjónusta - Tilkynning - 10.8.2018

Magnús Ingi Jónsson 2018-08-10 8:23

Fræsing og malbikun á Suðurlandsvegi (1)

Í dag á að fræsa báðar akreinar til vesturs á Suðurlandsvegi, um 2,1 km á milli vegamóta við Þrengslaveg og Litlu Kaffistofunnar. Akreinunum verður lokað á meðan og umferð færð yfir á öfugan vegarhelming.  - Áætlað er að vinnan standi til klukkan 19:00.

Eins á að malbika báðar akreinar á um tveggja km kafla á Hellisheiði til vesturs, vestan við Hellisheiðarvirkjun. Loka þarf akreinunum á meðan og því verður umferð beint úr hringtorginu við Hveragerði til suðurs og síðan um Þrengslin. - Áætlað er að þessi vinna standi yfir til miðnættis.

Lokun á Ölfusárbrú við Selfoss

Á sunnudagskvöldið hefjast framkvæmdir við brúna yfir Ölfusá við Selfoss. Brúin verður opin yfir daginn á mánudag en frá mánudagskvöldi verður hún lokuð í allt að viku. Gangandi vegfarendur komast þó um brúna. Sjá nánar hér

Þingvallavegur lokaður

Þingvallavegur (36) verður lokaður allri umferð milli þjónustumiðstöðvarinnar og eystri gatnamótanna við Vallaveg (361) fram í október. Hjáleið er um Vallaveg (361) Sjá nánar hér

Hjólreiðakeppni á Héraði

Hjólreiðakeppnin Tour de Ormurinn verður haldin á Héraði á Laugardaginn. Hjólaður verður Fljótsdalshringurinn upp Fell og síðan í gegnum Hallormsstað. Ræst er á Egilsstöðum kl. 9 og gert er ráð fyrir því að flestir keppendur verði búnir að hjóla um kl. 14. Við biðjum ökumenn um að taka tillit til keppenda.

Viðgerð á Miðfjarðarárbrú

Umfangsmikil viðgerð stendur yfir á brúnni yfir Miðfjarðará hjá Laugarbakka og því er umferð þar stýrt með ljósum. Brúin hefur reynst í verra ástandi en búist var við og nú er áætlað að vinnan standi fram í síðari hluta september.