Umferðarþjónusta - Tilkynning

Sveinbjörn Hjálmarsson 2015-01-26 20:19

Ábendingar frá veðurfræðingi

Vaxandi vindur í kvöld á landinu, en jafnframt fer hlýnandi. Á láglendi hlánar og síðar í kvöld og nótt einnig á flestum fjallvegum. Um er leið hætt við að flughált verði, einkum á fáfarnari leiðum. Skafrenningur og fremur blint verður á Öxnadalsheiði fram á kvöld og eins um kvöldmatarleitið á Holtavörðuheiði.

Hvalfjarðargöng

Búast má við minniháttar töfum í Hvalfjarðargöngum í nótt aðfaranótt 27.01. 2015 frá kl.00:30 og fram undir morgun vegna vinnu við vegbúnað.
 

Færð og aðstæður

Greiðfært er á Hellisheiði og í Þrengslum með þoku en hálkublettir á Sandskeiði og Mosfellsheiði. Hálka er á Lyngdalsheiði. Hálka og hálkublettir eru í uppsveitum á Suðurlandi.

Hálka og hálkublettir eru á Vesturlandi. Flughálka og óveður er á Holtavörðuheiði  og Flughálka á Fróðárheiði. Snjóþekja með skafrenningi er á Bröttubrekku og Svínadal.

Á Vestfjörðum er hálka og snjóþekja. Snjóþekja og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum. Þæfingsfærð er á Klettshálsi.

Á Norðurlandi er víða hálka eða snjóþekja á flestum leiðum og éljagangur og sumstaðar skafrenningur. Þæfingsfærð með skafrenningi er á Þverárfjalli.

Hálka eða hálkublettir eru á öðrum leiðum á Norðausturlandi og sumstaðar skafrenningur.

Á Austurlandi er hálka. Á Suðausturlandi er eitthvað um hálku og hálkubletti.

Siglufjarðarvegur

Vegna óvenju mikils jarðsigs á Siglufjarðarvegi eru vegfarendur beðnir að gæta ýtrustu varúðar.

Hæðatakmörkun á Breiðholtsbraut við Norðlingaholt

Verið er að byggja göngubrú milli Seláss og Norðlingaholts og því hafa verið settar
upp hæðarslár á Breiðholtsbraut í báðar áttir sunnan hringtorgið við Rauðavatn.  
Fyrst er komið að hliði með skynjurum sem setja af stað blikkljós og flautur á seinna hliðinu.  Á seinna hliðinu eru slár yfir götuna í hæð 4,35 yfir malbiki. Hámarkshraði í gegnum vinnusvæði er 30 km/klst. Hægt er að aka hjáleið um Suðurlandsveg og Norðlingabraut.

Lokun vegna eldsumbrota

Almannavarnir hafa lokað  leiðum á hálendinu Norðausturlands, norðan Dyngjufjalla. Vegurinn vestan við Dettifoss er einnig lokaður að hluta. Hægt er að sjá lokuð svæði hér.

Hreindýr á Austur- og Suðausturlandi

Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vara vegfarendur við umferð hreindýra á Austur- og Suðausturlandi. Sjá staðsetningu hreindýra hér.