Umferðarþjónusta - Tilkynning

Jón Hálfdán Jónasson 2014-10-31 8:05


Færð

Á Suðurlandi eru vegir greiðfærir en óveður er við Kjalarnes og víða um sunnanvert landið.

Vegir eru mikið auðir við Faxaflóa en hálka er á Holtavörðuheiði snjóþekja og éljagangur á Bröttubrekku og flughált á Laxárdalsheiði. Eins er óveður í Miðdölum.

Hálka, snjóþekja og jafnvel skafrenningur er á öllum helstu fjallvegum á Vestfjörðum. Hálka og óveður er á Hálfdán. Þæfingfærð og skafrenningur er á Hrafnseyrarheiði. Þæfingsfærð er á leiðinni norður í Árneshrepp á Ströndum. Óveður er í Reykhólasveit.

Á Norðurlandi er víðast hvar hálka, skafrenningur og éljagangur á vegum. Óveður er í Blönduhlíð og hálkublettir og óveður í Norðurárdal. Hálka er á Mývatns- og Möðrudalöræfum.

Það er víða hálka eða snjóþekja á Austurlandi. Hálka og óveður er á Fjarðarheiði og á Vatnsskarði eystra. Snjóþekja og snjókoma er á Oddsskarði en autt er frá Eskifirði með suðausturströndinni en óveður víða.

Framkvæmdir

Unnið er að nýjum áfanga á Álftanesvegi og er reiknað með að vinnunni ljúki föstudaginn 7. nóvember. Vegna framkvæmdanna þarf að fara hjáleið um Garðaholt og Garðaveg. Vegfarendur eru hvattir til að fara varlega enda vegurinn mjór miðað við þá umferð sem um hann þarf að fara á framkvæmdatímanum.

Lokun vegna eldsumbrota

Almannavarnir hafa lokað  leiðum á hálendinu Norðausturlands, norðan Dyngjufjalla. Vegurinn vestan við Dettifoss er einnig lokaður að hluta. Hægt er að sjá lokuð svæði hér.

Akstur á hálendisvegum yfir veturinn

Hálendisvegir eru aðeins í þjónustu yfir sumarið og utan þess tíma er færð ekki könnuð. Á haustin þegar snjóað hefur til fjalla, eru vegirnir merktir ófærir í varúðarskyni þar sem miklar líkur eru á að færð hafi spillst. Yfir veturinn er akstur á hálendisvegum að jafnaði ekki óheimill, séu menn á nægilega stórum tækjum en aksturinn er á ábyrgð ökumanns. Mikilvægt er að fara ekki út í óþarfa tvísýnu og hafa í huga að víða er takmarkað símasamband.  Nú er akstur þó bannaður á ákveðnum vegum vegna eldsumbrotanna og eins er akstur á hálendisvegum bannaður á vorin þegar frost er að fara úr jörð, til að koma í veg fyrir skemmdir á vegum og náttúru.

Hreindýr á Austur- og Suðausturlandi

Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vara vegfarendur við umferð hreindýra á Austur- og Suðausturlandi. Sjá staðsetningu hreindýra hér.