Umferðarþjónusta - Tilkynning

Jón Hálfdán Jónasson 2014-10-24 22:00

Færð

Á Suðurlandi er hálka á Hellisheiði og hálkublettir á Sandsskeiði og í Þrengslum. Einnig eru hálkublettir eða hálka á nokkrum fáfarnari leiðum.

Á Vesturlandi og Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum en sumstaðar  snjóþekja einnig er þoka á Holtavörðuheiði og éljagangur á Vatnaleið.

Það er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á Norðurlandi og eins er þoka í Húnavatnssýslu.

Á Austurlandi er hálka eða snjóþekja á vegum en greiðfært frá Reyðarfirði með suðausturströndinni.

Tafir á Álftanesvegi

Verið er að endurnýja slitlag á Álftanesvegi, á 600 metra kafla frá hringtorgi við Bessastaðaveg að Garðavegi, og má búast við talsverðri truflun á umferð á meðan.  Áætlað er að verkið standi út þessa viku. Vegfarendur eru hvattir til að fylgja merkingum og jafnframt er beðist velvirðingar á þeim óþægindum sem af þessu kunna að leiða.

Lokun vegna eldsumbrota

Almannavarnir hafa lokað  leiðum á hálendinu Norðausturlands, norðan Dyngjufjalla. Vegurinn vestan við Dettifoss er einnig lokaður að hluta. Hægt er að sjá lokuð svæði hér.


Akstur á hálendisvegum yfir veturinn

Hálendisvegir eru aðeins í þjónustu yfir sumarið og utan þess tíma er færð ekki könnuð. Á haustin þegar snjóað hefur til fjalla, eru vegirnir merktir ófærir í varúðarskyni þar sem miklar líkur eru á að færð hafi spillst. Yfir veturinn er akstur á hálendisvegum að jafnaði ekki óheimill, séu menn á nægilega stórum tækjum en aksturinn er á ábyrgð ökumanns. Mikilvægt er að fara ekki út í óþarfa tvísýnu og hafa í huga að víða er takmarkað símasamband.  Nú er akstur þó bannaður á ákveðnum vegum vegna eldsumbrotanna og eins er akstur á hálendisvegum bannaður á vorin þegar frost er að fara úr jörð, til að koma í veg fyrir skemmdir á vegum og náttúru.

Hreindýr á Austur- og Suðausturlandi

Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vara vegfarendur við umferð hreindýra á Austur- og Suðausturlandi. Sjá staðsetningu hreindýra hér.