Umferðarþjónusta - Tilkynning

Sigfríður Hallgrímsdóttir 2015-11-26 17:14

Ábendingar frá veðurfræðingi

Þau eru nokkuð snögg umskiptin og með kólnandi veðri um land allt eru líkur á éljum, en þó ekki suðaustanlands. Bleytan á vegyfirborði frýs og launhált verður því, sérstaklega sunnan- og vestantil.

Færð og aðstæður

Hálka er heldur að aukast á Suður- og Suðvesturlandi. Það er hálka á Hellisheiði og Mosfellsheiði en hálkublettir á Sandskeiði og í Þrengslum. Eins eru hálkublettir á köflum á Suðurlandi.

Hálka er á Holtavörðuheiði og einnig á Bröttubrekku  en vegir á Vesturlandi eru þó víða ýmist auðir eða aðeins með hálkublettum.

Það er hálka og hálkublettir á köflum á Vestfjörðum og éljagangur nokkuð víða. Snjóþekja er á Steingrímsfjarðarheiði en Hrafnseyrarheiði er ófær.

Hálka eða hálkublettir eru allvíða á Norðurlandi og éljagangur við Eyjafjörð. Flughált er á Dettifossvegi.  Hálka er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum en á Austurlandi er víða nokkur hálka, sérstaklega á fjallvegum. Greiðfært er að mestu með suðausturströndinni en þó eru hálkublettir í Öræfasveit og á Skeiðarársandi.

Framkvæmdir á Miklubraut og Kringlumýrarbraut

Ef veður leyfir verður unnið við malbiksviðgerðir á Miklubraut og Kringlumýrarbraut á morgun, föstudaginn 27. nóv. milli 09.30 - 16.00 sem hér segir:

  • Aðrein frá Miklubraut (til vesturs), inn á Kringlu/plan við Orkuna.
  • Frárein frá kringlu/plani við Orkuna.
  • Aðrein frá Miklubraut (til vesturs) inn á Kringlumýrarbraut (til norðurs).
  • Aðrein frá Kringlumýrarbraut (til norðurs) inn á Háaleitisbraut (til austurs).

Umferðartafir á Miklubraut.

Vegna vinnu við uppsetningu á vegriði á Miklubraut, á kaflanum frá mislægum gatnamótum Reykjanesbrautar að Grensásvegi, verða smávegis umferðartafir þar næstu daga frá kl. 09:00 til kl.16:00. Hraði um vinnusvæðið er lækkaður í 50 km/klst. og eru vegfarendur beðnir að sýna aðgát og virða merkingar.

Umferðartafir í Strákagöngum

Vegna vinnu við endurbætur á rafkerfi í Strákagöngum má búast við umferðartöfum
þar á virkum dögum frá klukkan 8:00-18:00 í nóvember og til 22. desember.

Vinna á Reykjanesbraut

Vegna framkvæmda við hringtorg á Reykjanesbraut er lokað fyrir umferð um Stekk. Umferðarhraði á vinnusvæðinu er 50 km/klst. Vegfarendum er bent á að nota mislæg gatnamót í Innri-Njarðvík eða hringtorg við Grænás.  Áætlað er að framkvæmdum ljúki í lok nóvember.

Vinna við undirgöng í Mosfellsbæ

Vegna framkvæmda við undirgöng undir Vesturlandsveg á móts við Aðaltún í Mosfellsbæ, er hraði þar tekinn niður í 50 km/klst.  

Vegfarendur eru beðnir velvirðingar á óþægindum sem vinna við vegsvæði veldur og eru hvattir til að fylgja þeim merkingum og leiðbeiningum sem uppi eru hverju sinni.