Útgefið gæðaskjal
Skjalnúmer:-655
Útgáfudagur:03/30/2011
Útgáfa:3.0
Ábyrgðarmaður:Ásbjörn Ólafsson
B B33.21 Framúrakstur vörubifreiða bannaður

Reglugerð um umferðarmerki:
Merki þetta ber að nota þar sem vörubifreiðum, þ.m.t. samtengdum ökutækjum, með meiri leyfðri heildarþyngd en 3.500 kg er bannað að aka fram úr öðrum vélknúnum ökutækjum en tvíhjóla.

Vinnureglur um notkun utan þéttbýlis:
Merkið ber að nota þar sem hætta er á að með framúrakstri þungra bíla skapist hætta á biðraðamyndun sem leiði af sér verulega lækkun á afkastagetu vegarins, eða að slysahætta geti skapast með hægfara framúrakstri þungra ökutækja.

Merki B33.21 má setja upp beggja megin vegar þar sem sérstök ástæða er til vegna takmarkaðrar vegsýnar e.þ.h.
Merkið skal setja upp 150 - 300 m áður en komið er að viðkomandi svæði og skal lengd bannsvæðis tilgreind á undirmerki J02.11 .
Þegar banni við framúrakstri er lokið skal sett upp merkið B33.41 , banni við framúrakstri lokið, ef bannvegalengd er 500 m eða lengri.

Ef um er að ræða marga stutta samliggjandi kafla, þar sem vegsýn er takmörkuð af og til, má sameina þá undir eitt eða fleiri bannmerki með undirmerki J02.11. Miða skal við að lengd á milli merkja við slík tilfelli sé ekki minni en 2 km.

Merkið má einnig nota á sömu vegum, þar sem vegsýn getur boðið upp á að aka fram úr, en aðstæður að öðru leyti gætu gert framúrakstur hættulegan, t.d. ef hættuleg beygja er framundan, gangandi fólk eða börn, hættulegar brekkur, vegamót o.s.frv.