Matsskýrslur
  • Suðurlandsvegur fyrir ofan Litlu kaffistofuna
    Suðurlandsvegur fyrir ofan Litlu kaffistofuna
    áður en víravegrið var sett upp

Skipulagsstofnun jákvæð gagnvart tvöföldun Suðurlandsvegar

13.7.2009

Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að óháð því hvaða kostur verður valinn við að tvöfalda og/eða aðskilja aksturstefnur á Suðurlandsvegi á milli Hólmsár og Hveragerðis, þá hafi þeir allir jákvæð áhrif á umferðaröryggi.

Stofnunin telur sig hins vegar ekki hafa forsendur til að leggja mat á hver kostanna sé bestur m.t.t. umferðaröryggis.

Skipulagsstofnun gaf út álit sitt um mat á umhverfissáhrifum fyrir tvöföldun Suðurlandsvegar frá Hólmsá ofan Reykjavíkur að Hveragerði 13. júlí.

Álit Skipulagsstofnunar

Matsskýrsla Suðurlandsvegar (PDF 26,2 MB)  Ath. stór skrá

Helstu niðurstöður:

Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að óháð því hvaða kostur verður valinn við að tvöfalda og/eða aðskilja aksturstefnur á Suðurlandsvegi á milli Hólmsár og Hveragerðis, þá hafi þeir allir jákvæð áhrif á umferðaröryggi.

Stofnunin telur sig hins vegar ekki hafa forsendur til að leggja mat á hver kostanna sé bestur m.t.t. umferðaröryggis. Neikvæðustu umhverfisáhrif verða vegna lagningar 2+2 vegar með mislægum vegamótum, sem hefur í för með sér verulega neikvæð áhrif á nútímahraun og búsvæði fugla og talsvert neikvæð áhrif á gróður, landslag, fornminjar og útivist.

Umferðarmannvirki vegna 2+2 vegar í nágrenni byggðar hafi verulega neikvæð sjónræn áhrif.

Áhrif á hljóðvist af 2+2 vegi með mislægum vegamótum og hljóðvörnum muni hins vegar ekki verða verulega neikvæð. Áhrif framkvæmdarinnar á vatnsból og vatnalíf geta orðið talsvert neikvæð verði slys á framkvæmdatíma, en á rekstrartíma verði áhrifin ekki verulega neikvæð.

Áhrif 2+2 vegar með vegamót í plani muni verða talsvert neikvæð áhrif á nútímahraun en minni áhrif á lífríki, landslag, útivist, hljóðvist og fornminjar heldur en af 2+2 vegi með mislægum vegamótum.

Áhrif 2+1 vegar með vegamót í plani verða nokkuð neikvæð á hraun að mati Skipulagsstofnunar, en ekki verulega neikvæð áhrif á lífríki, landslag, útivist, hljóðvist og fornminjar.

Skipulagsstofnun telur að hvernig til tekst um áhrif framkvæmdarinnar og starfsemi sem henni fylgir á umhverfið sé háð verktilhögun sem kynnt hafa verið við meðferð málsins.