Matsáætlanir
  • Axarvegur - Yfirlitsmynd

Axarvegur (939) milli Hringvegar í Skriðdal og Berufjarðar - Tillaga að matsáætlun

7.1.2008

Vegagerðin kynnir hér með drög að tillögu að matsáætlun vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Axarvegi, milli Skriðdals í Fljótsdalshéraði og Berufjarðar í Djúpavogshreppi í Suður-Múlasýslu. Byggja á nýjan 18 km langan veg sem nær frá vegamótum við Hringveg um 5 km sunnan við enda Skriðuvatns í Skriðdal, að Hringvegi í botni Berufjarðar.

Tilgangur framkvæmdarinnar er að bæta samgöngur á Austfjörðum, auka umferðaröryggi og draga úr slysahættu. Framkvæmd þessi er samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar í júlí 2007 sem mótvægisaðgerð vegna skerðingu á þorskkvóta og eru fjárveitingar til framkvæmda á árunum 2009-2011. Ekki er gert ráð fyrir að framkvæmdinni verði áfangaskipt.

Framkvæmdaaðili er Vegagerðin sem ber ábyrgð á mati á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar. Matsáætlun fyrir framkvæmdina er unnin skv. lögum nr. 106/2000 m.s.br. um mat á umhverfisáhrifum. Vegagerðin hefur skilgreint rannsóknarsvæði meðfram þeirri veglínu sem til skoðunar er.

Almenningur og umsagnaraðilar geta komið á framfæri athugasemdum og fyrirspurnum um matsáætlunina og gefið ábendingar um hvernig staðið skuli að einstökum þáttum matsvinnunnar, t.d. varðandi hvort rannsóknir nái til nauðsynlegra umhverfisþátta og fyrirhugaðar kynningar séu nægilegar.

Hægt er að senda tölvupóst til: helga.adalgeirsdottir (hjá) vegagerdin.is. Hringja í síma 522 1835 (Helga) eða 522 1838 (Magnús). Þá er auk þess hægt að senda skriflegar athugasemdir til:

Vegagerðin
b.t. Helgu Aðalgeirsdóttur
Miðhúsavegi 1
600 Akureyri

Axarvegur (939) milli Hringvegar í Skriðdal og Berufjarðar - Tillaga að matsáætlun, drög (PDF 4,4 MB)