Frummatsskýrslur
  • Hafið er mat á umhverfisáhrifum breikkunar Reykjanesbrautar frá Krýsuvíkurvegi að Hvassahrauni.
    Reykjanesbraut

Breikkun Reykjanesbrautar (41-15) frá Krýsuvíkurvegi að Hvassahrauni - frummatsskýrsla

Kynning á frummatsskýrslu

9.7.2021

Hafið er mat á umhverfisáhrifum breikkunar Reykjanesbrautar frá Krýsuvíkurvegi að Hvassahrauni. Almenningi gefst kostur á að kynna sér fyrirhugaða framkvæmd og frummatsskýrslu fimmtudaginn 15. júlí 2021.  Kynningin verður haldin í húsakynnum Vegagerðarinnar (Mótorskálanum), Borgartúni 5-7 í Reykjavík.  Húsið verður opið á milli kl. 14 og 18. Á staðnum verða fulltrúar frá Vegagerðinni og Mannviti. Allir geta skilað inn athugasemdum vegna skýrslunnar. Þær skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 23. ágúst 2021 til Skipulagsstofnunar bréfleiðis eða með tölvupósti á skipulag@skipulag.is.

Framkvæmdin

Vegagerðin áformar að breikka Reykjanesbraut (41-15) í Hafnafirði, frá Krýsuvíkurvegi að enda fjögurra akreina brautarinnar á Hrauni vestan Straumsvíkur. Lengd vegkaflans er um 5,6 km og er þetta eini kaflinn á Reykjanesbraut, frá Ásbraut í Hafnarfirði að Njarðvík, sem ekki hefur verið breikkaður.
Áformað er að breikka veginn í 2+2 aðskildar akreinar, breyta mislægum vegamótum við álverið í Straumsvík, ISAL, útbúa vegtengingar að Straumi og Álhellu, byggja mislæg vegamót við Rauðamel og útbúa tengingu að dælu- og hreinsistöð austan Straumsvíkur. Einnig er áformað að byggja undirgöng fyrir gangandi og hjólandi rétt austan við álverið sem og eftirlitsstaði fyrir umferðareftirlit beggja megin Reykjanesbrautar, austan við Straumsvík.

Framkvæmdin liggur á um 5,6 km kafla á milli Krýsuvíkurvegar og Hrauns. Framkvæmdin lýtur að breikkun vegar úr tveimur akreinum í fjórar með aðskildum akstursstefnum, frá núverandi mislægum vegamótum við Krýsuvíkurveg í átt að Reykjanesbæ, þar sem breikkunin tengist inn á fjögurra akreina kaflann sem endar um 500 m frá landamörkum Sveitarfélagsins Voga, á Hrauni vestan Straumsvíkur inn á landi Hafnarfjarðarkaupstaðar. Vegstæðið verður ekki fært, heldur á einungis að breikka núverandi veg þannig að legan helst óbreytt.

Núverandi breidd vegar er 11,5 m og mun hann nýtast sem akbraut fyrir umferð til suðvesturs, svo breikkun vegarins er til suðausturs. Gert er ráð fyrir einum nýjum vegamótum, þremur nýjum vegtengingum og breytingu á vegtengingu að álveri í tengslum við fyrirhugaða framkvæmd. Aðkoma að álveri ISAL breytist þannig að útbúin verður ný aðrein sem tengist inn á hringtorg og þaðan verður útbúin ný frárein til suðvesturs. Sunnan vegamótanna verður útbúið hringtorg og ný vegtenging að Álhellu til suðurs. Settar eru fram tveir valkostir fyrir bráðabirgða vegtengingu að Straumi. Annars vegar vegtenging frá mislægum vegamótum við álver (valkostur 1a), og hins vegar T-vegamót á Reykjanesbraut að Straumi (valkostur 1b). Einnig er gert ráð fyrir göngu- og hjólastíg meðfram Reykjanesbraut frá álverinu að Straumi. Þá er gert ráð fyrir mislægum vegamótum við Rauðamel og T-vegamótum Reykjanesbrautar við skólphreinsistöð austan við álver. Gert er ráð fyrir um 180 m af göngu- og hjólastíg meðfram hluta Reykjanesbrautar, auk 400 m göngu- og hjólastíg í valkosti 1b, og einum undirgöngum undir brautina fyrir gangandi og hjólandi. Undir mislægum vegamótum við Rauðamel verður 3 m breiður stígur fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Útbúnir verða tveir eftirlitsstaðir beggja megin Reykjanesbrautar fyrir umferðareftirlit

Frummatsskýrslan