Tilkynning um færð og ástand

Umferðarþjónusta - Tilkynning - 27.4.2017

27.4.2017 16:48


Færð og aðstæður

Í öllum landshlutum eru langflestir vegir nú auðir en þó er snjóþekja á Dynjandisheiði og  Hrafnseyrarheiði. Vegurinn af Dynjandisheiðinni niður í Trostansfjörð er mjög illa farinn af aurbleytu og ekki fær nema fjórhjóladrifnum bílum.

Hvalfjarðargöng - næturlokun

Vegna viðhalds og þrifa verða göngin lokuð í nótt, frá miðnætti til kl. 6 í fyrramálið, föstudaginn 28. apríl.

Umferðartafir á Reykjanesbraut sunnan Hafnarfjarðar

Vinna er hafin við gerð mislægra vegamóta Reykjanesbrautar í Hafnarfirði og Krýsuvíkurvegar. Því þarf að takamarka umferðarhraða á vinnusvæðinu við 50 km/klst. Vegna sprenginga þarf að stöðva umferð um vinnusvæðið á Reykjanesbraut í stutta stund (2-3 mínútur í senn), allt að þrisvar sinnum á dag.

Vegfarendur eru beðnir að sýna aðgát og virða merkingar við vinnusvæðið.

Lokun Eyravegar á Selfossi

Gatnamót Eyravegar og Kirkjuvegar á Selfossi eru lokuð vegna lagnaframkvæmda. Umferð er vísað hjáleið um Tryggvagötu meðan á framkvæmdum stendur. Vonast er til að vinnu ljúki í fyrstu viku júní.  Sjá nánar hér.

Hálendisvegir að vori

Þegar frost er að fara úr jörð getur jarðvegur orðið mjög gljúpur og viðkvæmur. Þetta á m.a. við um lélega malarvegi og frumstæða slóða líkt og á hálendinu. Akstur er þá bannaður til að koma í veg fyrir skemmdir, bæði á vegunum sjálfum og landi og gróðri sem geta skemmst illa ef ekið er út fyrir veg. Akstursbann hefur nú verið sett á fáeina vegi eins og sjá má á færðarkortinu.

Þungatakmarkanir

Ásþungi er takmarkaður við tvö tonn á Bíldudalsvegi (63) milli Bíldudals og Dynjandisheiðar en sjö tonn á Vestfjarðavegi (60) milli Flókalundar og Þingeyrar.

Borgarfjarðarbrú

Vegna vinnu við Borgarfjarðarbrú er önnur akreinin lokuð og umferð er stýrt með ljósum. Áætluð verklok eru um miðjan júní.