Tilkynning um færð og ástand

Umferðarþjónusta - Tilkynning - 23.6.2017

23.6.2017 13:27

Ábendingar frá veðurfræðingi

Sunnan undir Vatnajökli frá Kvískerjum og austur fyrir Lón má reikna með hvössum vindi og hviðum staðbundið allt að 30-35 m/s alveg þar til seint í kvöld eða nótt.  Einnig er hvasst við Lómagnúp og um miðjan dag kemur vindur líka til með að rjúka upp á Mýrdalssandi.  Þá er vakin athygli á því að sérlega mikið kemur til með að rigna austanlands, einkum á Austfjörðum og ekki hægt að útiloka grjóthrun á vegi við þær aðstæður síðar í dag og í nótt.

Hjólreiðakeppnin WOW Cyclothon

Nú stendur yfir hjólreiðakeppnin WOW Cyclothon þar sem hjólað er réttsælis hringinn í kringum landið.  Þátttakendur hjóla nú um Suðurland og er farið frá Selfossi niður í Ölfus og svo  um Suðurstrandarveg og Krýsuvíkurveg til Hafnarfjarðar.  Mikilvægt er að vegfarendur sýni sérstaka aðgát og tillitsemi meðan svo margt hjólafólk er á ferðinni.

Malbikun á Höfuðborgarsvæðinu

Í dag, föstudaginn 23. júní verður hringtorg við Nónhæð malbikað. Arnarnesvegur verður lokaður til vesturs, sett verður upp hjáleið og má búast við umferðartöfum frá kl. 12:00 til kl. 18:00.

Einnig er stefnt að því að malbika og fræsa akreinar á Breiðholtsbraut í kvöld og nótt, 23 - 24 júní. Báðum akreinum verður lokað á meðan en sett upp hjáleið þannig að búast má við umferðartöfum.  Áætlað er að framkvæmdirnar standi yfir milli kl. 18:30 til kl. 07:00.

Laugardaginn 24. júní er stefnt að því að malbika og fræsa báðar akreinar á Sæbraut, frá Klettagörðum að Sundagörðum. Annarri akreininni verður lokað í einu, en við Sundlaugaveg verður lokun yfir báðar akreinar. Umferðarhraði verður lækkaður framhjá vinnusvæðinu og má búast við lítilsháttar umferðartöfum. Hjáleiðir verða merktar.  Áætlað er að framkvæmdirnar standi yfir milli kl. 08:00 til kl. 17:00.

Á laugardagskvöld og nótt 24.-25. júní er stefnt að því að fræsa og malbika aðra akrein á Miklubraut, frá gatnamótum við Sæbraut að gatnamótum við Höfðabakka. Akreininni verður lokað á meðan og umferðarhraði lækkaður framhjá vinnusvæðinu og má búast við lítilsháttar umferðartöfum.  Áætlað er að framkvæmdirnar standi yfir milli kl. 18:00 til kl. 6:30.

Vegfarendur eru beðnir um að virða merkingar og hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðin. Vinnusvæðin eru þröng og menn og tæki eru við vinnu mjög nálægt akstursbrautum.

Vaðlaheiðarvegur

Vaðlaheiðarvegur 832 hefur verið opnaður að hluta, þ.e. 12 km kafli upp úr Eyjafirði en vegna framkvæmda við Vaðlaheiðargöng í Fnjóskadal er ekki hægt að láta umferð fara um vinnusvæðið við Skóga, því er veginum lokað við Ytra Nesgil. Öll umferð upp úr Fnjóskadal er því bönnuð.

Framkvæmdir á Reykjanesbraut og Krýsuvíkurvegi

Unnið er við mislæg vegamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar í Hafnarfirði. Umferð fer á kafla um hjáleið á Reykjanesbraut sunnan Hafnarfjarðar. Leyfður umferðarhraði þar er 50 km/klst. Vegna vinnu við sprengingar á framkvæmdasvæðinu þarf að stöðva umferð á Reykjanesbraut í skamman tíma, allt að þrisvar sinnum á dag.

Krýsuvíkurvegi hefur verið lokað tímabundið, milli Rauðhellu og hringtorgs við Hraunhellu / Hringhellu. Merkt hjáleið er um Rauðhellu og Hringhellu á meðan lokun Krýsuvíkurvegar varir (u.þ.b. til 24 júní).

Einnig er verið að byggja nýtt hringtorg á  Krýsuvíkurvegi (42), en um er að ræða gatnatengingar að Dofrahellu og Ásvallabraut (Klukkutorg).  Í upphafi verður unnið meðfram Krýsuvíkurvegi (42) og síðar í sumar verður umferð færð yfir á hjáleið við hlið framkvæmdasvæðis. Gert er ráð fyrir að hringtorgið verði tekið í notkun 1. september 2017. - Vegfarendur eru beðnir að sýna aðgát og virða umferðarmerkingar við vinnusvæðin.

Umferðartafir á Hringvegi

Vegna endurbóta á Hringvegi í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu er umferðarhraði takmarkaður við 50 km/klst á framkvæmdasvæðinu fram í miðjan júlí. Þrengt er að umferð og má búast við lítilsháttar umferðartöfum á meðan framkvæmdir standa yfir. - Vegfarendur eru beðnir um að virða hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðið þar sem menn og tæki eru við vinnu á og við akbrautina.

Búast má við umtalsverðum umferðartöfum á brúnni á Jökulsá í Lóni, um 20-30 mín í senn, milli kl 07.00 – 19.00  fram til 15. júlí vegna framkvæmda.