Tilkynning um færð og ástand

Umferðarþjónusta - Tilkynning - 19.7.2017

19.7.2017 12:50

Veðurviðvörun

Áfram kemur til með að rigna sunnanlands og reikna má með talsverðum vatnavöxtum s.s. í Þórsmörk og að Fjallabaki. Eins er hvass og þurr vindur á öræfunum norður af Vatnajökli og þar verður staðbundið sandfok vel fram á daginn.

Lokað að hluta á Fjallabaksleið nyrðri

Lokað er fyrir umferð um Fjallabaksleið nyrðri (F208) milli Hólaskjóls og Landmannalauga vegna mikilla vatnavaxta.

Lakavegi hefur verið lokað

Lakavegi (F206) hefur verið lokað vegna vatnavaxta um óákveðinn tíma.


Framkvæmdir á Reykjanesbraut og Krýsuvíkurvegi 

Unnið er við mislæg vegamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar í Hafnarfirði. Umferð fer á kafla um hjáleið á Reykjanesbraut sunnan Hafnarfjarðar. Leyfður umferðarhraði þar er 50 km/klst. Vegna sprenginga þarf að stöðva umferð á Reykjanesbraut í skamman tíma, allt að þrisvar sinnum á dag.

Einnig er verið að byggja nýtt hringtorg á  Krýsuvíkurvegi (42), en um er að ræða gatnatengingar að Dofrahellu og Ásvallabraut (Klukkutorg).  Í upphafi verður unnið meðfram Krýsuvíkurvegi (42) og síðar í sumar verður umferð færð yfir á hjáleið við hlið framkvæmdasvæðis. Gert er ráð fyrir að hringtorgið verði tekið í notkun 1. september 2017.

Þar að auki er unnið að gerð tveggja hringtorga á Reykjanesbraut (41), annars vegar við Aðalgötu og hins vegar við Þjóðbraut. Ökuhraði er lækkaður á framkvæmdasvæðinu og búast má við einhverjum töfum. Verkinu á að ljúka í september.

Framkvæmdir á Hafnarfjarðarvegi

Unnið er að gerð hljóðmanar á um 250m kafla við Arnarnes í Garðabæ. Frá 18. júlí til 21. júlí milli 07:30 og 16:00 þarf að loka annarri akrein til suðurs þar sem keyrt er upp úr Kópavoginum að Arnarnesbrú.

Vegfarendur eru beðnir um að virða merkingar og hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðin. Vinnusvæðin eru þröng og menn og tæki eru við vinnu við akbrautir.

Umferðartafir á Hringvegi

Búast má við umtalsverðum umferðartöfum á brúnni á Jökulsá í Lóni, um 20-30 mín í senn, milli kl 07.00 - 19.00  fram til 20. júlí vegna framkvæmda.

Vaðlaheiðarvegur

Vaðlaheiðarvegur 832 hefur verið opnaður að hluta, þ.e. 12 km kafli upp úr Eyjafirði en vegna framkvæmda við Vaðlaheiðargöng í Fnjóskadal er ekki hægt að láta umferð fara um vinnusvæðið við Skóga, því er veginum lokað við Ytra Nesgil. Öll umferð upp úr Fnjóskadal er því bönnuð.

Hálendiskort

Sjá hér