Tilkynning um færð og ástand

Umferðarþjónusta - Tilkynning - 19.6.2017

19.6.2017 8:53

Malbikun á Reykjanesi

Í dag, mánudaginn 19. júní er verið að fræsa og malbika hægri akrein við Grindavíkurveg, í átt að Keflavík. Akreininni er lokað á meðan,  umferðarhraði lækkaður framhjá vinnusvæðinu og má búast við lítilsháttar umferðartöfum milli kl. 8:00 og 14:00.

Einnig er stefnt að því að fræsa og malbika hægri öxl á Reykjanesbraut hjá Hvassahrauni, í átt að Keflavík. Akreininni verður lokað á meðan, umferðarhraði lækkaður við vinnusvæðið og má búast við lítilsháttar umferðartöfum frá kl. 11:00 til kl. 20:00

Malbikun í Reykjavík

Í kvöld og nótt (19.-20. júní) er stefnt að því að malbika aðra akrein á Miklubraut, frá gatnamótum við Sæbraut að gatnamótum við Höfðabakka. Akreininni verður lokað á meðan, umferðarhraði lækkaður framhjá vinnusvæðinu og má búast við lítilsháttar umferðartöfum frá kl. 18:30 til kl. 6:30.

Vegfarendur eru beðnir um að virða merkingar og hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðin sem eru þröng og menn og tæki eru við vinnu mjög nálægt akstursbrautum.

Framkvæmdir á Reykjanesbraut og Krýsuvíkurvegi

Unnið er við mislæg vegamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar í Hafnarfirði. Umferð fer á kafla um hjáleið á Reykjanesbraut sunnan Hafnarfjarðar. Leyfður umferðarhraði þar er 50 km/klst. Vegna vinnu við sprengingar á framkvæmdasvæðinu þarf að stöðva umferð á Reykjanesbraut í skamman tíma, allt að þrisvar sinnum á dag.

Krýsuvíkurvegi hefur verið lokað tímabundið, milli Rauðhellu og hringtorgs við Hraunhellu / Hringhellu. Merkt hjáleið er um Rauðhellu og Hringhellu á meðan lokun Krýsuvíkurvegar varir (u.þ.b. til 24 júní).

Einnig er verið að byggja nýtt hringtorg á  Krýsuvíkurvegi (42), en um er að ræða gatnatengingar að Dofrahellu og Ásvallabraut (Klukkutorg).  Í upphafi verður unnið meðfram Krýsuvíkurvegi (42) og síðar í sumar verður umferð færð yfir á hjáleið við hlið framkvæmdasvæðis. Gert er ráð fyrir að hringtorgið verði tekið í notkun 1. september 2017. - Vegfarendur eru beðnir að sýna aðgát og virða umferðarmerkingar við vinnusvæðin.

Umferðartafir á Hringvegi

Vegna endurbóta á Hringvegi í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu er umferðarhraði takmarkaður við 50 km/klst á framkvæmdasvæðinu fram í miðjan júlí. Þrengt er að umferð og má búast við lítilsháttar umferðartöfum á meðan framkvæmdir standa yfir. - Vegfarendur eru beðnir um að virða hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðið þar sem menn og tæki eru við vinnu á og við akbrautina.

Búast má við umtalsverðum umferðartöfum á brúnni á Jökulsá í Lóni, um 20-30 mín í senn, milli kl 07.00 – 19.00  fram til 15. júlí vegna framkvæmda.