Tilkynning um færð og ástand

Umferðarþjónusta - Tilkynning - 17.8.2017

17.8.2017 8:27

Framkvæmdir

Í kvöld, fimmtudaginn 17. ágúst er stefnt að því að fræsa og malbika hægri akrein á Miklubraut, frá Flugvallarvegi, í átt að Lönguhlíð. Akreininni verður lokað, umferðarhraði lækkaður framhjá vinnusvæðinu og má búast við lítilsháttar umferðartöfum. Áætlað er að vinnan hefjist kl. 18:00 en á miðnætti verður svæðinu lokað alveg. Verkinu á að vera lokið fyrir klukkan sex í fyrramálið.

Vegna veðurs náðist ekki að klára malbikun á Hellisheiði sem ljúka átti í gær og því er stefnt að  því að ljúka verkinu í kvöld og nótt. Um er að ræða 1200 m kafla efst í Skíðaskálabrekku á akrein til austurs. Lokað verður fyrir umferð til austurs um Suðurlandsveg og umferð beint um Þrengslaveg. Umferð sem á erindi í Hellisheiðarvirkjun verður hleypt framhjá en umferð til vesturs verður ótrufluð.  Áætlað er að vinnan standi yfir milli 19:00 og 03:00. - Vegfarendur eru beðnir að virða merkingar og  sýna aðgát við vinnusvæðin sem eru þröng og menn og tæki eru við vinnu mjög nálægt akstursbrautum.

Vegna þeirra tafa sem orðið hafa á vinnunni á Hellisheiði munu malbikunarframkvæmdir á Bústaðavegi einnig frestast og verða auglýstar síðar.

Framkvæmdir á Reykjanesbraut og Krýsuvíkurvegi 

Verið er að gera tvö hringtorg á Reykjanesbraut, annars vegar við Aðalgötu og hins vegar við Þjóðbraut. Umferð hefur verið hleypt á hringtorgið við Aðalgötu en Aðalgata verður lokuð fram í byrjun september. Ökumönnum er bent á hjáleið yfir á Þjóðbraut eða að aka um Garðaveg.  Verkinu í heild á að ljúka í september.

Unnið er við mislæg vegamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar í Hafnarfirði. Umferð fer á kafla um hjáleið á Reykjanesbraut sunnan Hafnarfjarðar. Leyfður umferðarhraði þar er 50 km/klst. Vegna sprenginga þarf að stöðva umferð á Reykjanesbraut í stutta stund, allt að þrisvar sinnum á dag.

Verið er að byggja nýtt hringtorg á  Krýsuvíkurvegi (42), en um er að ræða gatnatengingar að Dofrahellu og Ásvallabraut (Klukkutorg).  Gert er ráð fyrir að hringtorgið verði tekið í notkun 1. september 2017.

Borgarfjarðarbrú

Nú er unnið að lokaáfanga gólfviðgerðar á Borgarfjarðarbrú. Umferð er stýrt með ljósum. Verkinu á að ljúka 14. nóvember.

Vaðlaheiðarvegur

Vaðlaheiðarvegur 832 er opinn að hluta, þ.e. 12 km kafli upp úr Eyjafirði en vegna framkvæmda við Vaðlaheiðargöng í Fnjóskadal er ekki hægt að láta umferð fara um vinnusvæðið við Skóga. Því er veginum lokað við Ytra Nesgil og öll umferð upp úr Fnjóskadal er bönnuð.

Hálendiskort

Sjá hér