Útgefið gæðaskjal
Skjalnúmer:-120
Útgáfudagur:01/15/2016
Útgáfa:7.0
Ábyrgðarmaður:Ásbjörn Ólafsson
3.01 Vetrarakstur - nokkur góð ráð

Skyggni
Þegar skyggnið er slæmt þarf að lækka hraðann. Leyfilegur hámarkshraði getur verið of mikill við slíkar aðstæður. Háir snjóruðningar minnka skyggnið og setja stundum umferðarmerki og ljós nær því í kaf auk þess að þvinga gangandi vegfarendur út á akbrautina. Skafrenningur eða mikil snjókoma minnka einnig skyggnið. Þegar sól er lágt á lofti koma sólgleraugun sér vel, svo framarlega sem rúður eru hreinar (sjá neðar).

Stöðvunarvegalengd
Stöðvunarvegalengd er sú vegalengd sem ökutæki fer á viðbragðstíma ökumanns lögð saman við hemlunarvegalengd. Hemlunarvegalengd ræðst af veggripi og ökuhraða. Veggrip (eða viðnámsstuðull) er stærð á bilinu 0-1 þar sem 0 er ekkert viðnám og 1 er fullt viðnám. Skilgreiningar þar sem viðnám er annað hvort 0 eða 1 finnast ekki, þar sem enginn vegur er án nokkurs viðnáms né heldur með fullt viðnám.

Þegar ekið er á 90 km/klst. á þurrum vegi með bundið slitlag (viðnámsstuðull 0,9) er hemlunarvegalengdin 35 m.
Þegar ekið er á 90 km/klst. á hálum vegi (viðnámsstuðull 0,25) er hemlunarvegalengdin 130 m, næstum því 4-falt lengri.
Þegar ekið er á 50 km/klst. á hálum vegi (viðnámsstuðull 0,25) er hemlunarvegalengdin 50 m. Til að hemlunarvegalengdin væri 35 þyrfti hraðinn að vera nálægt 40 km/klst.

Þegar ekið er á 90 km/klst. á malarvegi með lausri möl (viðnámsstuðull 0,5) er hemlunarvegalengdin 62 m.

Eftirfarandi tafla sýnir dæmigerð gildi viðnámsstuðuls fyrir mismunandi ástand vegar og hemlunarvegalengd fyrir umferðarhraða 50, 70 og 90 km/klst.:
Ástand yfirborðs vegar
Viðnámsstuðull
Hraði
50 km/klst.
Hraði
70 km/klst.
Hraði
90 km/klst.
Blautur ís, glæra
0,1
100 m
200 m
ekki vitað
Þjappaður snjór
0,2
60 m
100 m
160 m
Nýfallinn snjór
0,3
40 m
70 m
100 m
Blautt vegyfirborð
0,4
30 m
50 m
78 m
Þurrt vegyfirborð
0,7
13 m
30 m
45 m

Eftirfarandi tafla sýnir þá vegalengd sem ökutæki fer á viðbragðstíma ökumanns:
Hraði
Ökumaður vel á verði
Viðbragðstími 0,7 sek
“Hefðbundinn” ökumaður
Viðbragðstími
1 sek
Þreyttur ökumaður
Viðbragðstími 2,5 sek
50 km / klst.
10 m
14 m
35 m
70 km / klst.
14 m
19 m
49 m
90 km / klst.
18 m
25 m
63 m

Stöðvunarvegalengd "hefðbundins" ökumanns í þjöppuðum snjó á hraðanum 70 km/klst. er því 100 m (hemlunarvegalengd) + 19 m (ekin vegalengd á viðbragðstíma) eða 89 m.

Öruggur og áhættulaus akstur við þverrandi veggrip felst í því að draga úr hraðanum og að vera vel á verði.

Þættir sem hafa áhrif á viðnám:
Vegyfirborð - Nýtt malbik með blæðingum (tjörublettum) er hált. Steypa er oftast hálli en malbik. Blautur ís eru þær aðstæður sem hálastar eru (sjá töflu fyrir neðan).
Dekk og hraði -Efnisgerð dekkja og mynstur hefur áhrif á viðnám. Ný dekk hafa betra viðnám en slitin dekk og þarf mynstur dekkjanna að vera nógu djúpt til að dekkið geti ýtt vatninu frá sér. Þegar mynstrið er of lítið og/eða þegar ekið er of hratt minnkar viðnámið þar sem vatnið kemst ekki í burt. Í tilraun RB með hemlunarvegalengdir mismunandi vetrardekkja kemur meðal annars fram að marktækur munur er á hemlunarvegalengd ónegldra dekkja og harðkornadekkja á þurrum ís miðað við negld vetrardekk og loftbóludekk.
ABS-bremsun - Hemlar með læsivörn eiga að gera ökumanni kleift að nauðhemla og stýra um leið framhjá því sem á vegi hans verður. Á blautum og hálum vegum á hemlunarvegalengd einnig að minnka með þessum ágæta hemlabúnaði og sama á við á þurrum vegum. Í lausamöl eða lausum snjó getur hemlunarvegalengdin hins vegar aukist. ABS bremsun kemur í veg fyrir að dekk læsist en viðnámið lækkar þegar dekk læsast

Skrikun (heimild: Akstur og umferð)
Í hálku eða í lausamöl getur bíllinn farið að renna til (eða skrika). Gerist það hefur ökumaðurinn gert eitthvað rangt, t.d. sveigt stýri harkalega, hemlað of fast, stigið of fast á bensíngjöfina eða skipt of snöggt í lægri gír. Oftast er of mikill hraði miðað við aðstæður meðorsök fari bílinn að skrika.

Fari afturendi bílsins að skrika bregst ökumaður svona við:
- stígur á kúplingu
- snýr stýrinu fljótt til þeirrar hliðar sem afturendinn leitar
- snýr stýrinu til baka eftir því sem stefna bílsins leiðréttist
- gefur kúplinguna varlega upp þegar réttri stefnu er náð

Fari framendi bílsins að skrika bregst ökumaður svona við:
- stígur á kúplingu
- snýr stýrinu dálítið til baka, þá næst oftast grip á ný
- reynir að stýra sem hættuminnst gegnum beygjuna
- gefur kúplinguna varlega upp þegar réttri stefnu er náð

Mjög mikilvægt er að muna að sé stigið svo fast á bremsu að hjólin læsist er ekki hægt að stýra bílnum. Sjái ökumaður, þegar hann nálgast beygju á vegi, að hraði hans sé of mikill má hann ekki bremsa og reyna að stýra samtímis. Þegar hann ætlar sér að beita stýrinu verður hann að sleppa bremsunni á meðan. ABS-bremsukerfi koma í veg fyrir að hjólin læsist og kerfið gerir ökumanni það mögulegt að bremsa og stýra samtímis. Láttu þér ekki bregða þótt þú finnir titring eða létt högg upp í fótinn í gegnum bremsufetilinn eða heyrir torkennilegt skrölt þegar þú hemlar í hálku. Hvorttveggja er fyllilega eðlilegt og gerist vegna þess að ABS kerfið er að hjálpa þér við að hafa fullt vald á bílnum á hálkunni.

Akstur í hálku (heimild: Akstur og umferð)
Á hálum vegi er best að aka af öryggi og gætni. Veggrip er oft svo lítið að ekki er hægt að bremsa og beygja samtímis. Öruggur akstur er þá fólginn í því að draga úr hraða tímanlega áður en komið er að beygju. Þá er hægt að nota allt gripið til að stýra bílnum gegnum beygjuna.

Þegar mikið vatn liggur á veginum eða hjólfjörin, sem grópast hafa í bundna slitlagið, eru full af vatni er mikil hætta á að veggrip tapist. Það gerist vegna þess að mynstur dekkjanna nær ekki að dæla burt öllu því vatni sem undir þau fer. Vatnið verður eftir milli vegar og dekkja og bíllinn fer þannig að fljóta eða sigla ofan á vatninu. Þá verður hann stjórnlaus. Þetta gerist helst þegar hraðinn er meiri en aðstæður leyfa og dekkin léleg. Best er að forðast að aka í slíkum hjólförum sé þess kostur.

Þegar bíllinn hefur misst veggrip (verður stjórnlaus) þarf að
- sleppa bensíngjöf og stíga jafnvel á kúplingu svo bíllinn renni áfram
- halda stýrinu fullkomlega kyrru
Þegar hraðinn minnkar ná dekkinn fljótlega gripi að nýju.

Áfylling eldsneytis - notkun ísvara
Bensín - Ef þú venur þig á að taka aldrei nema lítið bensín í einu getur bensíntankurinn hrímast að innan með þeim afleiðungum að vatn blandast bensíninu í næsta hlýindakafla. Þegar vatn blandast bensíni leiðir það til þess að vélin byrjar að hiksta og gefst síðan upp. Til að koma í veg fyrir þetta má setja smáslurk af ísvara í bensínið nokkrum sinnum yfir veturinn í þíðu eða fylla alltaf tankinn þegar bensín er tekið. Varast ber að ofnota ísvara þar sem það getur haft slæm áhrif á íhluti eldsneytiskerfa bensínbíla.

Hjólbarðar
Helsti munurinn á sumardekkjum og vetrardekkjum er sá að gúmmíið í sumardekkjunum harðnar ótæpilega í kuldum og virka dekkin þá eins og skautar. Vetrardekkin haldast aftur á móti mjúk þótt frostið herði, hvort sem þau eru mjög grófmynstruð eður ei. Mynsturdýpt vetrardekkja ætti að lágmarki að vera 3-4 mm. Gæta þarf þess að loftþrýstingur í hjólbörðum sé réttur (hann er að finna í handbók bílsins) til að þeir endist vel og virki rétt. Tjara sem festist á hjólbörðum dregur úr veggripi og því verður að hreinsa hjólbarðana af og til með tjöruhreinsi.

Rúður - bón
Gott skyggni út um rúður er mjög mikilvægt, ekki síst þegar sól er lágt á lofti og blindar ökumenn. Hreinsa þarf rúður reglulega og gæta þarf þess að strjúka ekki innanverða framrúðuna með höndunum til að koma í veg fyrir að húðfita setjist á hana. Best er nota sköfu eða láta miðstöðina vinna sitt verk. Gott er að þrífa bílinn reglulega og bóna hann því það dregur úr viðloðun snjós. Góð bónhúð er auk þess góð vörn gegn tæringu frá saltpækli. Fylla þarf á rúðuvökvann með frostþolnum vökva og skipta um léleg rúðuþurrkublöð. Rúðuþurrkublöðin eiga að vera ósprungin og laus við tjöru sem berst frá malbikinu. Oft nægir að strjúka yfir blöðin með tusku vættri úr tjöruleysandi efni. Mikilvægt er að hafa rúðusköfu og lítinn snjókúst á aðgengilegum stað.

Vatnskassi - frostþol
Frostþol kælivökva ætti að vera -25°C. Hægt er mæla frostþol með frostlagarmæli sem hægt er að fá að láni á flestum bensín- og smurstöðvum. Ekki má losa frostlög í niðurföll þar sem hann inniheldur hættuleg efni. Margar bensínstöðvar geta tekið við notuðum frostlegi og veitt aðra aðstoð.

Læsingar - hurðir
Smurning læsingar með lásaolíu dregur verulega úr líkum þess að læsingar frjósi fastar. Smurning varnarefna (silicons) á þéttlista hurða fyrirbyggir að þær festist í frosti.

Rafgeymar
Lág hleðsluspenna bíla getur skapað vanda þegar lofthitinn lækkar auk þess sem hún dregur úr líftíma rafgeymis. Hægt er að láta bifreiðaverkstæði mæla hleðsluspennuna en hún þarf að vera 14.2 - 14.5 volt (14.4 volt er æskilegt). Útfellingar á geymasamböndum geta orsakað erfiðleika við gangsetningu, sérstaklega í kuldatíð. Útfellingar er auðvelt að fjarlægja með volgu vatni, stálull eða fínum sandpappír. Muna þarf að taka geymasamböndin af og þrífa snertifleta þeirra líka. Til að hindra útfellingu er gott að strjúka sýrulausri feiti, t.d. vaselíni, yfir geymasamböndin og skaut rafgeymisins. Rafgeymar nýrra bíla þurfa lítið sem ekkert viðhald þannig að ekki þarf að fylgjast með magni rafgeymavökvans. Á eldri geymum þarf að athuga sýrumagn, það á að nema við merkingar eða u.þ.b. 10 mm ofan við plöturnar. Vanti á rafgeyminn skal bæta á hann eimuðu vatni.

Kveikjukerfi
Lélegir kveikjuþræðir auka mótstöðuna fyrir rafneistann til kertanna og það er mjög algengt vandamál við gangsetningu. Lélegar kertaþræðir eða háspennaþráður koma oft fram þegar verst á stendur eða í frosti og kulda. Skipta þarf reglulega um kerti en þau eru sá slitflötur sem fyrst gefur eftir í kveikjukerfinu. Endingartími kerti er talinn vera frá 10 til 30 þúsund km.

Nokkur góð hjálpartæki
Keðjur, vasaljós, startkaplar, dráttartóg og handhæg snjóskófla. Allir sem aka um langan veg ættu auk þess að hafa með góða yfirhöfn og jafnvel lítinn poka með sandi ef bílinn festist.

Smurolía
Gæta þarf þess að smurolían sé ekki látin mettast um of af óhreinindum og sóti. Það tryggir að gangsetning í kuldum verði eðlileg og að slit vegna kulda verði í lágmarki.

Bremsuvökvi
Sé bremsuvökvinn ekki endurnýjaður reglulega (á 2-3 ára fresti) veldur rakamettun hans pyttatæringu í bremsudælunum og þær eyðileggjast. Raki í bremsuvökva getur einnig valdið tímabundinni gufumyndum í bremsukerfi þannig að bremsur "detta" altl í einu af bíl þegar mest á reynir, t.d. þegar farið er niður langar brattar brekkur og bremsuvökvinn nær að hitna þannig að rakinn breytist í gufu við suðu í kerfinu.

Demparar
Kanna þarf ástand dempara reglulega. Ónýtir eða lélegir demparar gera það verkum að veggrip hjóls minnkar til mikilla muna. Þeir sem spóla mest í sköflunum á vetrum geta verið á bílum með ágætis vetrardekk en lélega dempara.