Útgefið gæðaskjal
Skjalnúmer:-018
Útgáfudagur:06/23/2010
Útgáfa:9.0
Ábyrgðarmaður:Ásbjörn Ólafsson
3 Skilgreiningar á færð á vegum og aðstæðum



Skilgreiningar á færð á vegum
Eftirfarandi skilgreiningar, litir og tákn eru notuð á færðar - og veðurkortum Vegagerðarinnar.

Greiðfært
Snjó- og íslaust yfirborð eða þegar a.m.k. annað hjólfar er autt á hverri akrein og snjór eða ís á öðrum hlutum vegarins er það lítill að vegfarendum stafar ekki hætta af.
Greiðfært yfirborð flokkast í eftirfarandi.
Þurrt
Yfirborð akbrautar er þurrt og snjó- og íslaust.
Rakt
Yfirborð akbrautar er dökkt af raka, en íslaust. Að öllu jöfnu þornar vegurinn fljótlega eftir að rigningu lýkur eða eftir söltun. Ekki úðast undan hjólum ökutækis.
Blautt
Vatn safnast í polla á vegyfirborði og vatn úðast undan hjólum ökutækis þótt ekki rigni.
Mjög
blautt
Yfirborð akbrautar er mjög blautt og lækir eða pollar myndast í hjólförum og lægðum í vegyfirborði og verulega hætta er á að ökutæki "fljóti" á veginum þegar ekið er greitt.

Hálkublettir
Vegyfirborð hulið ís eða þjöppuðum snjó á allt að 20 % af lengd vegarkaflans.

Hált
Vegyfirborð hulið þurrum ís eða snjó á meira en 20 % af lengd vegarkaflans. Viðnámsstuðull lægri en 0,25.

Flughált
Ísing (glæra) eða vegyfirborð hulið blautum ís eða blautum þjöppuðum snjó á meira en 20 % af lengd vegarkaflans. Viðnámsstuðull lægri en 0,15.

Krap/snjóþekja
Krap: Vegyfirborð þakið af vatnsmettuðum snjó með þykkt allt að 10 sm.
Snjóþekja: Vegyfirborð þakið að hluta eða að öllu leyti með allt að 10 sm lausum eða lítið þjöppuðum snjó.

Þæfingur
Vegyfirborð þakið að hluta eða öllu leyti með 10-20 sm lausu eða lítið þjöppuðum snjó og/eða stökum minni háttar sköflum og færð þannig að ekki telst öruggt færi nema fyrir vel búnar fólksbifreiðar með drif á öllum hjólum.

Þungfært
Vegyfirborð þakið af snjó með þykkt meiri en 20 sm og/eða stökum sköflum og færð þannig að ekki telst öruggt færi nema fyrir jeppa og stærri ökutæki.

Ófært
Ófært flokkast í eftirfarandi:
Snjóþyngsli
Snjóþyngsli það mikil að ekki telst fært fyrir almenn ökutæki.
Jeppaslóð
Vegyfirborð þakið af snjó með þykkt meiri en 30 sm og /eða stærri stökum sköflum og færð þannig að ekki telst öruggt færi nema fyrir vel búna jeppa og þar sem ekið er að hluta í slóðum eða á ruðningum.
Annað
Vegur er ófær af öðrum ástæðum eins og skriðuföllum, vatnsflóðum o.þ.h.


Skilgreiningar á aðstæðum vega

Ásþungi/heildarþungi 10t og 7t/5t/2t: Takmörkun á þunga ökutækja (einkennt með ásþungamerki B18.xx)
 
Vegavinna: Vegavinna/brúarvinna á vegi eða kafla og þess eðlis að ástæða er til að vara vegfarendur við og hvetja til aðgæslu (einkennt með vegavinnumerki A17.11)
 
Ósléttur vegur: Vegur eða vegarkafli það ósléttur að ástæða er til að vara vegfarendur við (einkennt með öldumerki A20.11)
 
Steinkast: Yfirborð vegar eða vegarkafla með lausri möl og hætta á steinkasti (einkennt með steinkastmerki A22.11)
 
Allur akstur bannaður: Vegi eða vegkafla lokað fyrir allri umferð ökutækja m.a. til að verja hann skemmdum (einkennt með merkinu allur akstur bannaður B01.11)
 

Skilgreiningar á aðstæðum í umhverfi vega
  Óveður: Vindhraði 19 m/sek (hvassviðri, 37 hnútar) eða meiri eða vindhviður eru meiri en 26 m/sek (51 hnútur).
 
Snjókoma: Snjókoma það mikil að vegsýn er skert að einhverju leyti og/eða hætta er á að færð geti þyngst á næstu klukkustundum.
 
Skafrenningur: Laus snjór og vindhraði meiri en 11 m/sek (kaldi, 18 hnútar) og snjófok það mikið að vegsýn er að einhverju leyti skert og/eða hætta er á að færð geti þyngst á næstu klukkustundum.
 
Stórhríð: Vindhraði 16 m/sek eða meiri (allhvass, 30 hnútar) og ofankoma, erfitt ferðaveður og mikil hætta á að færð geti þyngst á skömmum tíma.
 
Éljagangur: Talsverð ofankoma og fjúk getur verið í éljunum en á milli er mun bjartara veður og betra skyggni.
 
Þoka: Dimm þoka með það skertri vegsýn að m.t.t. umferðaröryggis er talin ástæða til að vara ökumenn við.
 
Opnun: Unnið að mokstri.
 
Fært fjallabílum: Þessi skráning er eingöngu notuð þegar búið er að opna fjallvegi og hliðstæða vegi (t.d. Sprengisandsleið, veg í Laka o.s.frv.) og þá fyrir þær leiðir þar sem ekki er talið ráðlegt að fara um á fólksbílum.
 
Ekki vitað: Ekki vitað um færð.